Hafsteinn Ægir Geirsson

Hafsteinn Ægir Geirsson

Hjólaþjálfari og viðgerðir

Þjálfarinn er Hafsteinn Ægir Geirsson, kallaður Hafsteinn, Haffi hjólari, Capteinninn en oft einfaldlega bara Haffisæti.

Hafsteinn er þessi fyrirmyndar íþróttamaður sem krefst mikils af sjálfum sér og hefur ávallt verið tilbúinn til að gefa af sér til íþróttar sinnar. Hann hefur haft mikil áhrif á þróun hjólreiðasportsins enda búinn að fylgja greininni, ávallt í fremstu röð í 14 ár.

Hann er ekki bara með hjólreiðarnar upp á 10 í löppunum, heldur einnig einn sá allra fimasti í viðgerðum á hjólum og búnaði og með gríðarlega víðtæka hjólreiðaþekkingu í hausnum um hjólreiðasportið í heild sinni.

 

Mottó Vera hress! Hafa gaman og ekki taka hlutunum alltof alvarlega! Siglingar og hjólreiðar eru útisport og þú ræður hvernig þú upplifir veðrið sem er stór partur af ánægjuhluta sportsins
 

Stuttar staðreyndir um Hafstein Ægi

Uppalinn blautur í fæturnar í Siglunesi þó hann hafi í raun átt lögheimili í Skerjafirði hjá mömmu sinni.

 

Stakk af úr bifvélavirkjun í Borgarholtsskóla 17 ára til að fara á Heimsmeistaramótið í siglingum í Dubai.

 

Var atvinnumaður í siglingum í tæp 5 ár og bjó á lítilli eyju í suður Frakklandi með liði sínu og æfði og keppti í siglingum um alla Evrópu og Ástralíu.

 

Hefur keppt á tvennum Ólympíuleikunum, í Sidney 2000 og í Athenu 2004.

 

Kom 2004 frá Frakklandi, landi hjólreiðanna með hjólreiðarnar djúpt í hjartanu og hefur haft mikil áhrif á þróun hjólreiðaíþróttarinnar á Íslandi síðan þá.

 

Var 9 sinnum kjörinn siglingamaður ársins og 9 sinnum verið kjörinn hjólreiðamaður ársins á vegum Íþrótta- og ólympíusambands íslands. Á óteljandi Íslandsmeista- og bikarmeistararatitla í hjólreiðum. Unnið Bláalóns keppnina sem er í raun móðir keppnishjólreiða á íslandi, 10x í röð og er enginn nálægt því að gera betur.

 

Uppáhalds hjólaleiðir: Reykjavík – Þingvellir á götuhjóli. Hvalfjörðurinn er líka frábær því það er fátt betra en góður kaffibolli í Kaffi Kjós.

Fjallahjólaleiðir eru margar en mín uppáhalds er Jökulsárgljúfur (opin hjólreiðum eina helgi á ári), finnst svæðið bara svo fallegt og ekki skemmir að slóðinn er virkilega skemmtilegur að hjóla. Að hjóla í góðra vina hóp eða góðum félagsskap toppar allt!

 

Herbergisfélagar á Ólympíuleikunum í Sidney 2000: Bronsmedalían hennar Völu Flosa og Jón Arnar Magnússon tugþrautarkappi.

 

Fjallahjól eða Götuhjól? Svo ólíkt og bæði betra ásamt Cyclocross hjólinu mínu á mismunandi dekkjum eftir aðstæðum. Hjól og hjól er bara alls ekki það sama, þegar ég fer td af fjallahjólinu og yfir á götuhjóliið þá er það bara alls ekki sama íþróttagreinin. En ég nota mest það hjól sem ég er að keppa á hverju sinni og það fer einnig eftir því hvaða ferla í þjálfuninni ég vill leggja áherslu á.

 

Ef vinnan væru ekki hjólreiðar, þjálfun og hjólaviðgerðir?: Þá myndi ég vilja vera flugvirki eða gröfukall.

 

Blæti (fetish): Innlegg í skó er án efa blæti hjá mér. Innlegg þarf að vera spot on, en gallinn er að innleggið er ekkert alltaf spot on eins og ég vill hafa það. Þannig að ég er svolítið í því að mixa þau til og á eflaust í kring um 30 innlegg í fínu boxi.

Ég verð líka að viðurkenna að ég fæ virkilega mikið út úr því að sjá og vera á hreinum hjólum, finnst skítug hjól, sama hvort það sé mitt eða annarra vera mikil vanvirðing við hjólið.

 

Mest pirrandi : Vera illa undirbúinn fyrir hjólatúr, finna ekki neitt og já kaffið kannski búið líka, alveg óþolandi. Þess vegna hef ég vanið mig á að taka hjólafötin til kvöldið áður og gera kaffikönnuna og bollann klárann. Hjólið er yfirleitt alltaf klárt því ég hef það sem reglu að fara alltaf yfir það eftir hvern hjólatúr, þá er bara að setja olíu á keðjuna og tékka á loftinu í dekkjunum.

 

Uppáhalds morgunmatur: Hafragrautur/tröllahafrar, gæti hugsanlega lifað á honum, þarf meira að segja stundum að halda aftur af mér og get orðið vandræðalega spenntur að vakna á morgnanna til að útbúa grautinn. Hafragrautur, súkkulaði protein og bananar, klikkar ekki.

 

 

Lengri útgáfan af Hafsteini Ægi

Siglingamaðurinn

Ferill minn sem íþróttamaður er ansi langur. Byrjaði að stunda siglingar þegar ég var 9 ára og varð fljótlega ljóst að þetta átti vel við mig. Fór fljótlega að bera mig við aðra betri siglara og komst fljótt í fremstu röð. Fagnaði fjölmörgum íslandsmeistaratitlum , var valinn siglingarmaður ársins 9 sinnum  og bjó í suður Frakklandi í rúm 4 ár þar sem ég undirbjó mig fyrir Óympíleikana í Sydney 2000 og Aþenu 2004. Lagði síðan árar í bát eftir Aþenu 2004. Siglingar verða þó alltaf mitt sport og neita ég alltaf að ég sé hættur!

 

Hjólreiðamaðurinn

Þegar ég bjó í suður Frakklandi var ekki hægt að komast hjá því að fylgjast með hjólreiðum (það sem ég þoldi ekki hjólreiðar allan daginn á Eurosport). Siglingum fylgdi óendalegt magn af allskonar þrekæfingum þar á meðal hjól og hlaup. Hjólið hentaði betur því þá gat maður skoðað stærra svæði.

 

Fann það 2003 að hjólið átti vel við mig og í laumi byrjaði ég að æfa hjólreiðar sjálfur meðfram siglingum.

30 Desember 2003 hitti ég Gunnlaug Jónasson á íþróttamaður árins hófinu, hann var þá þar sem hjólreiðamaður ársins og ég sem siglingamaður ársins. Við áttum það sameiginlegt að hafa báðir farið 2 sinnum á Ólympíleika í siglingum. Ég spurði um æfingar og 6:00 31.des 2003 var Gulli mættur heim og ég fór á mina fyrstu hjólaæfingu.

 

Síðan þá hefur margt gerst í hjólreiðum á Íslandi. Ég hef unnið fjölmarga bikarmeistaratitla, Íslandsmeistaratitla, unnið Bláalóns þrautina 10 sinnum í röð og verið valinn hjólreiðamaður ársins 9 sinnum.

Á þessum tíma hefur hjóla sportið þróast mikið og hefur þátttakendum fjölgað gríðarlega, sem dæmi þá voru 56 í fyrstu Bláalónsþrautinni sem ég vann en hátt í 1000 þeirri síðustu!

Ég ætla að leggja mig fram við það að  geta tekið þátt í fremstu röð eitthvað áfram ásamt því að vera til taks og tals fyrir þá sem eru að rúlla nýjir inn í hjólreiðarnar og leggja mig fram við að hjálpa lengra komnum að verða enn betri.

 

Viðgerðamaðurinn – mekkinn

Að skrúfa og vera með skítugar hendur er mitt. Hef alla tíð verið góður í höndunum og hef alið mér vandvirk vinnubrögð hvort sem það er að laga bátinn minn eða reiðhjól.

Vann í Markinu frá 2004-2008 við samsetningu ,viðgerðir og sem sölumaður. Fór svo yfir í Örninn í mars 2008-2016 og var aðalega í viðgerðum og samsetningu á dýrari hjólum þar “high end”, bike fit og ásamt því að stökkva í hin ýmsu verk sem fólu meðal annars í sér hamar, nagla og málningu og tengdust hjólreiðum ekki á neinn hátt.

Hef á þessum tíma skapað mér ágætt orðspor, bæði sem góður viðgerðamaður, samsetningamaður og góður ráðgjafi með allskonar hjólreiðatengd mál. Hef líka náð að búa til stóran kúnnahóp í kringum mig sem eru bæði góðir kunningjar og ekki síst góðir vinir mínir í dag.

Til baka