Eftir því sem þú æfir jafnvægið á hjólinu meira því betra jafnvægi nærðu á hjólinu…Satt. Eftir því sem þú ert með betra jafnvægi á hjólinu, því betri verður þú í að bregðast við áreitum sem verða á vegi þínum og minni líkur á því að þú dettir, valdir öðrum slysi eða að aðrir valdi þér slysi eða óhappi…Satt. Meira jafnvægi á hjólinu gerir þig sem sagt að betri hjólara í öllum aðstæðum! Engin geimvísindi og segir sig sjálft…Satt 🙂

Það að æfa jafnvægið er ákveðin forvörn gegn slysum fyrir fyrir þig og aðra í kring um þig. Það er ekki samasem merki á milli þess hversu langt einhver getur hjólað og hversu gott jafnvægi hann hefur á hjólinu.

Verið því dugleg að æfa jafnvægið á hjólinu reglulega!

Ég fer í ýmsar æfingar á námskeiðunum hjá mér, hvort sem það er á fjallahjóli eða götuhjóli. Þú þarft að þekkja hjólið, vita hvernig það virkar og þekkja sjálfan þig á hjólinu. Það er gott að enda hjólatúrinn á því að taka 5mínútur í nokkrar jafnvægisæfingar:
– Hjóla á línu, td á bílastæðum, bæði hratt og hægt.
– Taka eins þröngar U begjur og þú getur án þess að setja fótinn niður, gott að nota bílastæða merkingar til að setja sér markmið. Passa að æfa í báðar áttir.
– Halda jafnvægi, hjóla eins hægt og mögulegt er eða stoppa alveg, ýmist í sitjandi eða standandi stöðu, Svo er líka bara svo sjúklega töff að þurfa ekki að setja fótinn niður á ljósum.
– Svo er bara að útfæra þetta endalaust með ýmsum brögðum og fleiri æfingum, nota umhverfið.

Ekki flókið og skemmtileg áskorun í enda hjólatúrsins eða í upphafi þegar þú ert að bíða eftir því að hjólafélaginn er að gera sig klárann.