María Ögn Guðmundsdóttir

Þjálfarinn er María Ögn Guðmundsdóttir, kölluð María Ögn, María og oft bara Ögnin.

María er með metnaðinn í botni í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur, hvort sem það snýr að henni sjálfri sem keppnismanneskju, þjálfara eða öðrum verkefnum sem koma upp á leiðinni í gegnum lífið. Hún hefur óstjórnlega gaman af því að fylgja fólki í átt að markmiðum sínum og finnst fjölbreytileikinn í fólkinu og markmiðum þess, frábær áskorun og gefandi um leið.

 

Markmið Að taka þátt í lífinu, að viðvera mín hafi áhrif á aðra.
Mottó „Life begins at the end of your comfort zone“
Heilræði Aldrei getur neinn orðið það bestur að hann geti ekki orðið betri.

 

Stuttar staðreyndir um Maríu Ögn

Fædd og uppalin á skíðum á Ísafirði, með mjög víðtækann íþróttabakgrunn vegna íþróttaforvitni sinnar prófað hinar ýmsustu íþróttagreinar.

 

Sálfræðimenntuð frá Háskóla Íslands, IAK Einkaþjálfari með áherslu á sjúkraþjálfaramiðaða styrktarþjálfun og með 2 metra langann lista af námskeiðum á sviði þjálfunar, sálfræði og stjórnunar.

 

Þjálfari síðastliðin 17 ár á hinum ýmsustu vígstöðum íþróttagreina, heilsueflingar og íþróttasálfræðilegra þátta.

 

Ofurskipulagður viðburðastjóri og verið framkvæmdastjóri stórra viðburða eins og WOW Cyclothon og KIA Gullhringsins.

 

Keppnismanneskja með metnaðinn í botni, margfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari í götu- og fjallahjólreiðum, unnið Bláalóns þrautina sex sinnum og verið kjörin þríþrautarkona ársins og hjólreiðakona ársins á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samtals sex sinnum.

 

Var fyrst kvenna til að príða landslið Íslands í hjólreiðum og keppa fyrir Íslands hönd í hjólreiðum á smáþjóðaleikum.

 

Hvað tekur María í bekk? 76 kg í bekk, færi vel í 80 kg með því að bæta við öflugu öskri.

Max í hnébegju? 132 kg í Studio Dan á Ísafirði á skíðaferlinum 19 ára.

Vill ólm auðga íslenskann orðaforða: Vill koma orðinu GONT betur í út í íslenskt samfélag, orðið Gont er samsett úr orðunum GOtt og voNT og stendur fyrir það sem er kannski vont en er í raun gott fyrir þig, eins og td æfingar, nudd, ákveðinn matur o.s.frv.

 

Lengri útgáfan af Maríu Ögn

Menntun
Sálfræðimenntuð frá Háskóla Íslands, er IAK Einkaþjálfari með áherslu á sjúkraþjálfaramiðaða styrktarþjálfun, hreifigreiningu og útskrifaðist þar með hæðstu einkunn.
Listinn af námskeiðum og fyrirlestrum er ansi langur og snýr hvað helst að sviði íþrótta og hugrænna þátta. Til að mynda, hefur lokið öllum þrepum í þjálfaramenntunarröð ÍSÍ, Sérgreinanámskeiðum alpagreina SKÍ. Íþróttasálfræði hjá HÍ og HR, Hugræn atferlismeðferð á vegum Endurmenntunar HÍ. Er með kennararéttindi Íþróttaskóla Latabæjar – sem meðal annars fól í sér verklegt próf í Sollu Stirðu dansinum fyrir framan 4 dómara, geri aðrir betur.  Ásamt ýmislegu fleiru sniðugu eins og námskeið í Hagnýtum humor hjá Endurmenntun HÍ.

 

Þjálfarinn
Þjálfari á hinum ýmsustu vígstöðum síðastliðin 17 árin. Var yfirþjálfari Skíðadeildar KR í sjö ár og skólastjóri Sumarskóla KR í fótbolta og körfubolta. Hefur þjálfað fólk á hlaupum, sundi, Boot Camp þjálfað verðandi mæður og nýorðnar mæður.
Rak sína eigin þjálfunarstöð í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ í þrjú ár, þar sem hún starfaði sem einkaþjálfari og sem svokallaður “live coach” með áherslu á styrktarþjálfun og andlega lífstengda kvilla, með allskonar hópa og einstaklinga af öllum stærðum og gerðum í ýmsum tilgangi með ólík markmið.

 

Síðustu ár hefur hún einbeitt sér að hjólaþjálfun, hjólreiðatengdum námskeiðum og fræðslu.
Verkefnin hafa verið fjölbreytt enda bjóða hjólreiðarnar upp á haf af möguleikum, hún hefur þjálfað allt litrófið, frá því að hitta súrefnisþega á rafmagnshjóli til einstaklinga sem vilja taka verulega vel á því, ná að toppa sig og ná góðum árangri í keppnum.

 

Viðburðarstjórinn
María  starfaði sem framkvæmdastjóri WOW Cyclothon hjólreiðakeppninnar þar til árið 2015.
Var framkvæmdastjóri KIA Gullhringsins 2016 sem er 800 manna götuhjólakeppni og mikill viðburður sem haldinn er á Laugarvatni í júlí ár hvert.

Hefur haldið ófáa stóra og smærri viðburði tengda hjólreiðum síðustu ár. Hún hefur lagt mikinn metnað sinn í það að auka þátttöku kvenna í hjólreiðum á Íslandi á allann hátt. Hjólaþjálfun býður alltaf upp á tvo stóra stelpu viðburði þar sem 100-250 konur mæta og hjóla á götuhjólum og fjallahjólum. Þessi hvatning til kvenna hefur skilað sér gríðarlega vel og konum fjölgað mikið á hjólinu síðustu ár.

 

Skíðaþjálfarinn
Alpagreinarnar, svig og stórsvig eru hennar uppeldis íþróttagreinar. Hún æfði skíði á Ísafirði frá 7 ára og þar til hún var 20 ára og á ágætis safn af verðlaunapeningum og bikurum eftir þennan frábæra tíma á snjónum. Ísfirðingurinn skundaði síðan suður með skíðin og var yfirþjálfari Skíðadeildar KR í 7 ár. Þjálfaði meistaraflokk skíðadeildar Ármanns á undirbúiningstímabili í þrek- og styrktarþjálfun, haustið 2016.

Skíðagangan, María hefur staðið á gönguskíðum í og með síðan hún var krakki á Ísafirði. Hefur gengið mikið á utanbrautar gönguskíðum með sleðahundana sína. Tók þátt í að stofna og sat sem stjórnarmaður í fyrsta og hingað til eina Skíðagöngufélaginu á höfuðborgarsvæðinu. Skíðagöngufélagið Ullur var stofnað árið 2007 og er með félagsskála sinn innst í Bláfjöllum.

Skíðaflotinn er vel útbúinn, á alpagreina brautarskíði, fjalla-skinn skíði, utanbrautar gönguskíði, áburða-brautargönguskíði og skautaskíði.

 

Keppnismanneskjan
Hún hefur alltaf haft gaman af því að skora á sjálfa sig og hefur keppt í allskonar íþróttum og á ýmsa titla og bikara allt frá því hún var krakki.

Sem hjólreiðakona hefur henni gengið mjög vel að ná því að hampa gullinu síðustu 8 árin, þar er svona helst að nefna.
Kjörin þríþrautakona ársins árið 2009
Hjólreiðakona ársins 2010, 2012, 2013, 2014
Er margfaldur Íslandsmeistari og Bikarmeistari í fjallahjólreiðum, götuhjólreiðum og fjallabruni.
Unnið Bláa lóns keppnina sex sinnum og á besta tíma kvenna í þeirri keppni 1:55:54 sem náðist árið 2015.
Var fyrsta konan sem keppti fyrir Íslands hönd í hjólreiðum á Smáþjóðaleikum, keppti fyrst árið 2011 og aftur 2013. Hefur keppt í götuhjólakeppnum erlendis þar sem hún sigrað B flokk tvisvar sinnum í stórri keppni í Danmörku.

Til baka