Upplýsingar um aðstöðuna og hjólin

Hvar erum við til húsa
Við erum á Bíldshöfða 9, í húsinu „Höfðinn“
Erum svona á milli Mathallarinnar og Golfbúðarinnar.
Ferð inn þar sem stendur „Inngangur“ hægramegin framan á húsinu, byrjar á því að fara inn í Spörtu og þar inni er hvít hurð merkt Hjólaþjálfun.
Þú getur líka komið aftan við húsið og farið beint inn í Hjólaþjálfun, merkt hurð og þú sérð þar hjólasalinn inn um gluggann.
Hjólaþjálfun er með tvo æfingasali alveg sér, samtals 230fm
Deilir svo sturtu- og salernisaðstöðu með Spörtu Heilsurækt þar sem eru sex sturtuhausar í bæði kk og kvk búningsherbergjunum.

Þú hringir í María Ögn þjálfara 775 9902 ef þú ert villt/ur.

Hjólasalurinn
– Í hjólasalnum sem er 102fm eru 41 Icg8 power hjól og gott pláss á milli hjóla.
– Tónlistagræjur, myndvarpi og tjald með öllum möguleikum á tengingum á tjaldið.
– Við opnum gluggana, notum viftur og útblástursgræjur til að halda loftinu góðu í salnum.
– Við höfum sett 7 mismunandi hjólreiða hnakka á hjólin og því ættu því öll klof að finna sér hnakk við hæfi, ef ekki þá eru gelpúðar í boði í salnum.
– Við settum alvöru Shimano 520 spd pedala á hjólin, þannig næst flot á klítana sem fer mun betur með hnéin (ekki þvinguð) og Q-factorinn verður hárréttur (breiddin á milli sveifanna/pedalanna) og legurnar eru margfalt betri. Það gerir það að verkum að þeir sem eru tæpir í hné finna ekki fyrir eymslum sem annars finnast á ódýrari pedölum sem fylgja svona hjólum. Það eru 5 hjól í salnum með pedölum/táklemmu sem hægt er að nota með strigaskóm. Enginn annar hjólasalur á Íslandi er með alvöru reiðhjólapedala á hjólunum hjá sér…þú finnur muninn!
– IC8 hjólin eru á allan hátt hönnuð að hjólreiðafólki svo inniæfingar hjólarans verði sem líkastar þínum hjólreiðum.
– Þessi hjól gefa þjálfurum kost á að taka FTP watta test á einstaklingnum sem setur gríðarleg gæði í æfingarnar og þjálfunin verður einstaklingsmiðaðri og getur fólk á öllum getustigum æft saman.
– Hjólið er tengjanlegt við Garmin, Strava og Zwift og eru Garminfestingar á öllum hjólunum.
– Hjólið er útbúið fríhjóli, pedalarnir hætta sem sagt að snúast ef þú hættir að pedala, bara eins og á venjulegu hjóli. Þú getur einnig fylgst með því hvernig þú nýtir sveifasnúninginn, nýtingu á vöðvum og sérð einnig kraftmun á milli hægri og vinstri fótar.
– Við notum sérstaka klúta til að þrífa hjólin eftir hverja æfingu (ekki pappír), þannig haldast þau mun snyrtilegri eftir hverja notkun.

Æfingasalurinn
Í æfingasalnum hjá okkur sem er 130 fm, er gott gólfpláss til að teygja á eða gera aðrar gólf æfingar.
Þar eru 2x róðravélar, 1x Ski-erg skíðagönguvél, góður hnébegjurekki, bekkpressubekkur, bumper-lóðaskífur samtals um 300kg, tvær 20kg ólympískar stangir, réttstöðulyftubúr, lyftingabelti og ólar. Ketilbjöllur í nokkrum þyngdum, medicene æfingaboltar, „wall ball“ æfingaboltar, æfingakassi (t.d til að hoppa upp á), sippubönd, upphýfingastöng, TRX-bönd. Ýmisskonar stöðuleika plattar og kúlur, nokkrar gerðir af æfingateygjum, nuddrúllur, nuddboltar, dýnur, joga kubbar og einnig „interval“ tímaklukka á veggnum til að stýra lotuæfingum.

„Fit“ vilt þú fá aðstoð við að stilla þig rétt á inni hjólið
Við bjóðum upp á svokallað „fit“ á þessi innihjól Icg8, að láta stilla þig í sem réttasta stöðu á hjólinu.
Nauðsynlegt að vera í hjólabuxum og hjólaskóm með klítum/festingu til að geta komið í svona „fit“.
Við bjóðum ekki upp á stillingu á aðrar típur af innihjólum en Icg8 og ekki ef þú ert í strigaskóm.
Verð: 6.000.- ,tekur um 30 mín
Hafsteinn Ægir finnur þínar réttu stillingar á hjólið svo staðan á þér sé sem réttust á inniæfingum.
Þú þarft alls ekki að vera að æfa með Hjólaþjálfun til að nýta þér þessa þjónustu.

Fyrirspurnir um „Fit“ berist á maria@hjolathjalfun.is

— Síðast uppfært 28. nóv 2019 —

Til baka