Hjólaþjálfunar misfróðlegur fróðleikur um hjólandi hópahegðun!

Í öllum aðstæðum í lífinu þurfum við að hugsa til náungans þegar við erum í hóp, við erum jú ekki ein þegar við erum í hóp og skilgreiningin á hóp eru tveir eða fleiri. 

Hér eru nokkur grunnatriði til að hafa í huga og leggja sig fram við að fara alveg eftir, þú vilt ekki vera aðilinn sem fólki finnst leiðinlegt og þykir óöruggt að hjóla með.

– Einbeittu þér að því að hjóla beint, náunginn fyrir aftan þig, til hliðar eða hvar sem er treystir á það.

– Staðsettu hendur þannig á stýrinu að þú náir vel í bremsur, því þá ert þú fljótari að bregðast við ef einhvað óvænt gerist innan hópsins.

– Varastu að gera snöggar hreifingar, hraðabreytingar eða taka í bremsur innan hópsins af tilefnislausu.

– Þegar þú ferð fremst í vindinn og hópurinn er að vinna saman, ekki gefa allt í botn (kallast að rikkja) því þá koma teygjuáhrif og leiðinlegar hreyfingar á hópinn. Farðu heldur fremst og auktu hraðann smám saman ef þú getur.

– Vegirnir á íslandi eru allskonar, skemmdir í köntum, holur eða viðgerðir í götunni osfv. Horfðu lengra fram fyrir þig, líka þegar þú ert ekki fremst í hópnum, horfðu þá reglulega fram fyrir hópinn og vertu vakandi fyrir því sem er framundan.

– Varaðu þá sem eru fyrir aftan þig við áreitum, skemmdum í malbikinu osfv sem koma með handabendingum eða kalli.

– Ef þú ert óörugg/ur að ná í brúsann til að fá þér að drekka, farðu þá aftast í hópinn og náðu þér í brúsann þar, þú skapar þannig minni hættu fyrir hópinn ef þú ert að klaufast með þetta.

– Hafðu bremsurnar í lagi og prófaðu þær áður en þú leggur af stað í hjólatúra eða keppni. Þó þær séu í lagi heima þá getur einhvað komið upp eftir að hafa til dæmis troðið hjólinu inn í eða utan á bílinn.

– Þú átt að sjálfsögðu aldrei að hafa tónlist í eyrunum þegar þú hjólar í hóp.

– Við hjólum aldrei á öfugum vegarhelming, þó það væri hentugt til að ná því að vera í kjölsogi/draft eða fara framúr. Í keppnum ert þú hiklaust dæmdur úr leik ef þú hjólar yfir miðlínu vegar.

Ég hvet fólk síðan til þess að taka alltaf gott hópknús eftir hóphjólatúr.