Viðtal í Stundinni 10. júlí 2016
Reynir Traustason
rt@stundin.is

María Ögn Guðmundsdóttir vonast til þess að samskipti hjólreiðafólks, bílstjóra og gangandi fólks, batni. Maður grýtti hjólafólk. Fordómafullir og ógnandi bílstjórar. „Fólk á öllum getustigum getur hjólað“

„Ég er mikil útivistarmanneskja. Hjólasportið heillaði mig gjörsamlega strax og ég kynntist því. Ég keypti mér flott hjól árið 2008 til að verðlauna mig fyrir að hafa gengið með dóttur mína sem fæddist árið 2007. Síðan hefur hjólasportið átt mig alla,” segir María Ögn Guðmundsdóttir, þjálfari og eigandi hjolathjalfun.is.

Sprenging í hjólreiðum
María Ögn er ekki aðeins hjólreiðakona af lífi og sál. Hún á að baki marga sigra í hjólreiðunum og hampaði fyrsta sætinu í nær öllum keppnum síðustu sjö árin. Aðalstarf hennar er að standa fyrir keppnum og viðburðum á sviði hjólreiða auk þess að leiðbeina fólki við að hjóla og þjálfa það til sigra á þessu sviði.

„Hjólreiðar eru mikið almenningssport á Íslandi. Það hefur orðið algjör sprenging. Fjöldi þeirra sem iðka þetta hefur margfaldast á undanförnum árum. Stærsti hópurinn er á aldrinum 35=55 ára. Þegar ég byrjaði árið 2008 voru fáar konur í þessu sporti. Ég beitti mér strax fyrir því að fá konur til að taka þátt, með ýmsum viðburðum og námskeiðum. Síðan hefur fjöldi kvenna í hjólreiðum stóraukist. Það er í raun mjög sérstakt á heimsvísu hve margar konur á Íslandi stunda hjólreiðarnar,” segir María Ögn.

Allir geta hjólað
Hún segir að það góða við hjólreiðarnar sé að allir geti stundað þær sér til heilsubótar og ánægju. „Það skiptir ekki máli hvort fólk er of þungt eða glímir við krankleika í skrokknum. Langflestir geta hjólað og farið yfir stór svæði með þeirri tilfinningu sem fylgir því að vera töff á því í góðum fíling. Þetta sport fer vel með líkamann. Fólk á öllum getustigum getur hjólað, en það geta til dæmis ekki allir hlaupið,” segir María.

Sjálf hefur hún unnið kraftaverk í að breiða út boðskapinn. Hún hefur frá upphafi verið viðriðin og var framkvæmdastjóri fyrir þá vinsælu keppni, WOW Cyclothon til ársins 2015, sem fjölmargir hafa tekið þátt í. Hún útfærði hugmyndina að baki keppninni og samdi reglurnar. Í ár er María framkvæmdastjóri KIA Gullhringsins, hjólreiðakeppni sem haldin er á Laugarvatni 9. júlí.

„Um 800 manns taka þátt í þeirri keppni með ýmis persónuleg markmið til að sigra. Ég er mjög ánægð með þátttökuna. Þetta hefur orðið að góðu hjólapartíi alla helgina á Laugarvatni þar sem fólk skemmtir sér hið besta við iðkun íþróttar sem gefur bæði gleði og styrk,” segir hún.

María Ögn segir að stöðugt fleiri átti sig á því hvað líkamsrækt utandyra gefi mikla aukagleði og lífsfyllingu, sama hvort það séu hjólreiðar, hlaup, göngur eða annað.

„Ég finn að þeir sem hjóla gera það með tilhlökkun en ekki af því þeir neyðist til þess að hreyfa sig. Maður á að vilja fara á æfingu og hreyfa sig, en ekki að þurfa þess. Það er svo margt í boði og skemmtilegt hægt að gera.”

Kúnstin að hjóla
María Ögn þjálfar byrjendur ekki síður en lengra komna. Hún segir að fólk kunni ekki endilega að hjóla þótt það geti rennt sér áfram og haldið jafnvægi.

„Ég er að þjálfa fólk sem vill komast í toppform. Einnig er ég að þjálfa fólk sem vill einfaldlega halda heilsunni. Ég er ekki síst að kenna fólki að hjóla og nota hjólið rétt. Fólk kann ekki endilega að hjóla þótt það geti haldið jafnvægi á hjólinu og komist áfram. Þetta er mjög tæknileg grein. Þetta er líkt og með sundið, þú kannt ekki að synda þótt þú komist á milli bakka. Þar gildir ákveðin tækni rétt eins og við hjólreiðarnar. Aðalmarkmið mitt er að kenna fólki tæknina við að hjóla svo það verði öruggara gagnvart sjálfum sér og öðrum. Fara yfir þær reglur sem halda þarf í heiðri og er ekki vanþörf á þessari kennslu sem er til þess ætluð að kenna hjólreiðafólki að haga sér rétt í umferðinni hvar sem er,” segir María Ögn.

Reiðir ökumenn
Það getur stundum verið hættulegt að vera hjólreiðamaður í umferð bifreiða og háskinn stutt undan ef gerð eru mistök. Alvarleg slys hafa orðið þar sem hjólreiðafólk varð fyrir bifreið. María Ögn hefur sjálf ekki lent í alvarlegu slysi á hjóli.

„Ég hef ekki lent í mörgum óhöppum á hjólinu. Það hjálpar auðvitað að ég er tæknilega góð á hjólinu. En það er yfirleitt ekki tiltökumál þótt fólk detti á hjóli og fái einhverjar skrámur. Það er enginn væll í þessu sporti. Versta tilvikið sem ég hef lent í var sennilega þegar ég datt á hjólinu á 50 kílómetra hraða. Ég skrapaði mig óþægilega við að lenda á malbikinu en slapp að öðru leyti vel. Það var blautt úti sem leiddi til þess að ég flaut vel á malbikinu,” segir hún.

„Fólk kann ekki endilega að hjóla þótt það geti haldið jafnvægi á hjólinu og komist áfram.“
María Ögn er mikið á hjóli í umferðinni og á stígunum að kenna hópum og leiðbeina. Varla líður sá dagur að hún sé ekki á ferðinni. Hún segir leiðinlega algengt að ökumenn sýni hjólreiðafólki beinlínis andúð.

„Það er stórfurðulegt og sorglegt að upplifa fordómana í umferðinni. Bílar keyra gjarnan of nálægt manni til að kenna manni lexíu, flauta frekjulega eða hrópa út um gluggann. Það er eins og fólki finnist sjálfsagt að ausa yfir mann skömmum bara fyrir það eitt að maður sé á hjóli, hvort sem maður er hjólandi eða kyrrstæður. En ég tek þessu með jafnaðargeði og hef fyrir reglu að svara helst ekki fyrir mig og bið fólk um að röfla í einhverjum skemmtilegri en mér og brosi. Ég hef trú á því að þessir vaxtarverkir vegna hjólreiðanna í samfélaginu eigi eftir að sjatna og allir verði á endanum góðir vinir,“ segir hún.

Pirringur á stígum
Sjálfir hafa hjólreiðamenn orðið fyrir þeirri gagnrýni að þeir stofni gangandi vegfarendum í hættu á blönduðum stígum þegar þeir þjóti áfram. María Ögn kannast við þetta og segir það í raun alveg réttmæta gagnrýni á margan hátt.

„Ég hef þá reglu sjálf að nota bjöllu til að vara fólk við. Ég er nýbúin að fá mér nýtt racer-hjól sem ég setti bjöllu á til að geta látið vita af mér. Það þykir til tíðinda í hjólaheiminum þar sem bjöllur eru ekki hátt skrifaðar á racer-hjólin og dýrustu týpurnar. Ég hef notað slagorðið: Minnkum röfl og notum bjöllu. Það þarf líka að brýna það fyrir öllum sem nota blönduðu stígana að halda hægri regluna líkt og í umferðinni á götunum og mætti endilega merkja blandaða stíga á þann hátt sem allir ættu að fara eftir. Þá sjatna þessi leiðindi vonandi fyrr og allt fer að ganga, hlaupa og hjóla smurt fyrir sig.

Ég nota stígana mikið með dóttur minni, átti hunda, fer á línuskauta og hjóla. Ég veit hvernig það er óþægilegt að fá hjól hratt fram hjá sér og hjólreiðafólk má alveg taka það til sín að sýna tillitssemi og meta aðstæður, ekki síður en fólk á akbrautum og blönduðum stígum.

Þessi pirringur á sér ýmsar hliðar. Í síðustu viku var ég að leiðbeina manni. Við hjóluðum rólega eftir stíg þegar það kom hlaupari á móti. Hann horfði á mig og hljóp viljandi beint á öxlina á mér þótt það væri nóg pláss og við alls ekki fyrir honum, aðrir en ég hefðu sennilegast dottið við höggið en hann leit ekki við því hann ætlaði sér að gera þetta. Það kom upp tilvik á Kársnesi í Kópavogi nýlega þar sem maður sat á bekk og kastaði steinum í hjólreiðahóp sem átti leið framhjá. Félagi minn sem hjólar á liggjandi hjóli, varð einnig fyrir barðinu á manninum, en hann varð fyrir steinkasti frá honum. Þessi mál voru tilkynnt til lögreglu en lítið hægt að gera gagnvart honum. Við finnum fyrir ákveðinni heift í fólki og í raun fordómum gagnvart hjólreiðafólki, sem er svo ótrúlegt og í raun virkilega merkilegt að upplifa. Tek það þó fram að við finnum fyrir breytingu og sífellt meiri jákvæðni, sem er frábært,” segir hún.

Allir út að hjóla
María Ögn vill fá sem flesta út að hjóla. Hún vill sjá að hjólreiðar þrífist í góðu samkomulagi við ökumenn og aðra vegfarendur.

„Hjólreiðar eru fyrst og fremst stórt lýðheilsumál fyrir þjóðina. Þetta fer vel með liði og allan líkamann og er heilnæm hreyfing. Hjólreiðar þurfa ekki að kosta handlegginn eins og margir halda, fólk getur farið af stað með fín hjól sem kosta 70 þúsund krónur. Ég á mér þá ósk að hér á Íslandi verði til falleg hjólreiðamenning þar sem fjölbreyttur hópur fólks ferðast um á alls konar hjólum í ýmsum tilgangi. Það er fátt skemmtilegra en að hjóla í góðum félagsskap sama hvernig veðrið er,” segir hún.

Það getur verið vandasamt að velja rétta hjólið
Racer hjól
Þetta eru hjólin með mjóu dekkjunum og hrútastýrinu. Þú ferð hraðast og auðveldast um á þessu hjóli. Þú getur notað racerinn frá miðjum apríl þar til miðjan október.

Fjallahjól
Þessi hjól eru nær eingöngu notuð utan malbiks og á malarstígum. Þau eru með grófum, breiðum dekkjum og með dempara að framan en oft líka undir sætinu. Ísland býður upp á svo marga frábæra staði til að hjóla í náttúrunni. Nærri höfuðborgarsvæðinu eru til dæmis Heiðmörkin, Öskjuhlíð, Hólmsheiði og Hvaleyrarvatn.

Flat bar racer og Dual sport-hjól
Í raun er ekki til eitt nafn yfir þessi hjól en þetta eru hjól sem eru mitt á milli racer og fjallahjóla. Þau eru ýmist með sléttum dekkjum sem eru þó breiðari en á racer og kallast „flat bar racer” því það er ekki með hrútastýri. Síðan eru það dual sport-hjólin sem eru með grófum dekkjum, mjórri en á fjallahjóli. Þessi hjól eru með smávegis dempun að framan.

Cyclocross-hjól
Lítur út eins og racer-hjól, með hrútastýri. Munurinn er þó sá að hægt er að nota það allan ársins hring og á malbiki, möl og í hálku. Aðeins þarf að nota mismunandi dekk. Í raun allra sniðugustu kaupin ef fólk vill alhliða hjól.

Hollráð Maríu
– Finndu þér hjálm sem passar fyrir þig, bæði þægilegur og líka töff, því þú átt að vilja vera með hjálminn í öll skiptin sem þú ferð á hjólið.

– Gerðu jafnvægisæfingar, hjólaðu eins hægt og þú getur. Stoppaðu jafnvel. Lærðu á það hvernig bremsurnar virka og notaðu alla gírana á hjólinu.

– Æfðu þig að sleppa stýrinu með annarri hendi svo þú getir gefið handabendingar “stefnuljós” á bæði akbrautum og stígunum.

– Hnakkurinn er stórt atriði þess að njóta hjólreiðalífsins til fullnustu, ef þinn er ekki þægilegur, fáðu þér þá nýjan strax.

– Hjólaskór með festingu til að smella sér í pedalann er í raun nauðsynlegt, með því ert þú að dreifa álaginu á vöðvana sem kemur þá í veg fyrir ákveðið vöðvaójafnvægi í fótum.

– Það er hvetjandi og skemmtilegt að fylgjast með því hversu langt þú ferð. Garmin-tæki eða einhvers konar mælir bætir helling í gleðina sem fylgir því að hjóla.

Greinina má nálgast á Stundin.is/Fólk-öllum-getustigum-getur-hjólað