Öll börn eiga að kunna að hjóla, það er órjúfanlegur hluti af uppeldinu og það er réttur allra barna að eiga hjól. Vegna þessa þá hefur Barnaheill ávallt safnað saman hjólum og gefið þeim sem ekki hafa þann kost á að kaupa hjól handa barninu sínu.

Það er alveg kúnst að læra að hjóla og til þess að gera þetta sem gleðilegast fyrir alla þá eru hérna nokkur atriði sem er gott að hafa í huga.

• Haldið undir hnakkinn eða í haldfang sem er aftan á hnakknum á sumum barnahjólum, td á TREK.
• Ekki halda í öxlina, hendina eða annarstaðar í barnið.
• Ekki halda í stýrið, þú veist alveg hvað það er ömurlegt að stýra bíl þegar einhver annar heldur í stýrið hjá þér.
• Þegar barnið er alveg að ná því að hjóla sjálft en er ekki komið með hugrekki að þú sleppir strax þá er gott að halda neðarlega í jakkann eða styðja við mjóbakið til að veita smá öryggi.
• Sparaðu orðin, ekki vera endalaust að útskýra og nota flókin orð. Þú veist hvað það er óþægilegt þegar það er endalaust kjaftað ofan í þig þegar þú ert að einbeita þér.
• Notaðu einfaldar útskýringar sem barnið skilur, sem dæmi, í stað þess að segja „stígðu á pedalann“ er hægt að segja „vertu rosa sterk í fótunum“.
• Barnið lærir fyrst að hjóla, svo lærir það að bremsa og síðan lærir það að komast sjálft af stað. Ekki krefjast þess af barninu að læra allt í einu. Hjálpaðu sem sagt barninu af stað, ekki byrja í kyrrstöðu, það kemur seinna.
• Það er erfitt að hjóla á bæði of stóru og of litlu hjóli, hjólið þarf að vera í réttri stærð.
• Gott er að hafa hnakkinn lægri til að byrja með, þannig að barnið nái vel niður með tánum á báðum fótum þegar það situr á hnakknum.
• Jafnvægishjól þar sem barnið hleypur hjólið áfram er frábært fyrsta hjól í stað þríhjóls eða hjóls með hjálparadekkjum. Með jafnvægishjóli, kemur jafnvægið og skilningurinn fyrir því að stýra hjólinu.
• Leyfðu þessu að gerast, börn eru mis lengi að ná því að hjóla óstudd.
• Hafðu upplifun barnsins af því að læra að hjóla jákvæða og hrósaðu smásigrunum.
Byrjaðu strax að kenna barninu hægri reglu á stígum og að halda sig við að hjóla beint, notið heldur göngustíga en hjólastíga til að byrja með.

Jább og farð þú í hlaupaskóna þína, þetta tekur á fyrir alla aðila 🙂

Kveðja María Ögn
Hjólaþjálfari
mariaogn@gmail.com